Teris og EJS hafa skrifað undir stærsta Microsoft samning sem gerður hefur verið á Íslandi að því er fram kemur í tilkynningu frá félögunum.

Samningurinn nær yfir mikinn hluta af vörum Microsoft, allt frá Windows stýrikerfum yfir í miðlara og netþjóna. Samningurinn veitir Teris aðgang að öllum nýjungum frá Microsoft jafn óðum og þær koma á markað.

Teris er upplýsingatæknifyrirtæki sem þjónar sparisjóðum, bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum. Auk þess að annast net- og vefþjóna, sinnir Teris umfangsmikilli gagnagrunns og forritaþjónustu og um 1500 vinnustöðvum starfsmanna viðskiptavina sinna.

Til viðbótar við samninginn var gerður samstarfssamningur sem nær yfir menntun og fræðslu fyrir starfsmenn Teris, sem iSoft mun eiga veg og vanda af, og munu starfsmenn EJS og iSoft sjá um þá fræðslu.