Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) spáir því að hagkerfi aðildarríkjanna muni dragast saman um 0,3% á næsta ári og viðsnúningur muni eiga sér stað árið 2010 en þá er spáð 1,5% hagvexti.

Mesti skellurinn verður í Bandaríkjunum en stofnunin spáir að 2,8% samdráttur verði í hagkerfinu á síðasta fjórðungi þessa árs og það muni minnka um 2% á fyrstu þrem mánuðum næsta árs.

Bandaríska hagkerfið mun ekki taka að vaxa á ný fyrr en á þriðja fjórðungi ársins 2009 að mati sérfræðinga stofnunarinnar.

Það er ástandið á fjármálamörkuðum og lækkanir á fasteignaverði sem eru helstu ástæður niðursveiflunnar í hagkerfum aðildarríkja OECD og sérfræðingar stofnunarinnar gera ekki ráð fyrir að skarpur viðsnúningur muni eiga sér stað í bráð.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Jorgen Elmeskov, starfandi aðalhagfræðingi OECD, að samdráttarskeiðið verði ekki V-laga og að viðsnúningurinn muni verða hægur í sögulegu samhengi.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .