Það er víðar byggt mikið en á Íslandi. Nú hefur stærsta verslun heims, Gullna auðlindin (Golden Resource), hefur verið opnuð í Kína. Samkvæmt frétt á vef Bloomberg er verslunin staðsett í vesturhluta höfuðborgarinnar Peking eða Beijing eins og hún er nú oftast kölluð. Er stærð verslunarhúsnæðisins á við 120 fótboltavelli, eða 20 sinnum stærri en Smáralindin okkar í Kópavogi sem er "aðeins" 63 þúsund fermetrar og rúmar ekki "nema" um 6 fótboltavelli.

Verslunin er á sex hæðum og hver hæð er á stærð við 20 fótboltavelli og bera menn þetta helst saman við stærðina á Kínamúrnum sem reyndar má sjá út um glugga verslunarinnar. Mikið er lagt í bygginguna sem kostaði sem svara til um 85 milljarða ísl. króna að því er haft er eftir kínverska dagblaðinu The Standard.

Gullna auðlindin mun ekki lengi halda titli sínum sem stærsta verslunarmiðstöð heims, því innan tíðar opnar ný risaverslun dyr sínar í Kína en hún mun heita South China Mall og er líka staðsett í Peking. Stærðin á þeirri sjoppu mun vera um 20 fótboltavöllum stærri en Gullna auðlindin, eða sem svarar einni hæð í því molli, eða sem nemur nærri fjórum Smáralindum.