Stærstu bankar Bandaríkjanna og Norðurlanda eru nú nálægt sínu lægsta V/H gildi síðustu tíu árin og hefur kennitalan á þeim norrænu reyndar aldrei verið lægri, segir greiningardeild Kaupþings.

V/H gildi segir hve markaðsvirðið jafngildi margföldum hagnaði félagsins og er yfirleitt miðað við síðastliðna tólf mánuði en einnig er hægt að miða við spá um hagnað næstu tólf mánaða og er þá talað um vænt V/H-hlutfall, að því er fram kemur í orðasafni greiningardeilar Kaupþings.

"Staða þeirra er þó ólík, en ólíklegt er að norrænu bankarnir verði fyrir beinum áhrifum vegna taps af undirmálslánum eða skuldavafningum eins bandarískir og evrópskir stórbankar hafa orðið fyrir," segir greiningardeildin.  "Hins vegar má telja líklegt að þóknanatekjur norrænna banka dragist saman eins og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum sökum óróleikans á fjármálamörkuðum. Eins er líklegt að útlánatap norrænu bankana aukist vegna hættu á niðursveiflu efnahagslífsins. Að einhverju leyti er hér á Norðurlöndum búið að verðleggja áhrif keppu í Bandaríkjunum sem hefði fremur víðtæk áhrif á Vesturlöndum."

Efasemdir um hagnaðarspár

V/H gildi 30 stærstu banka á Norðurlöndum stendur nú nálægt 8,0 og telur greiningardeildin að svo lágar kennitölur, jafnt þar sem og í Bandaríkjunum, standist ekki til lengdar. "Að hluta til má skýra þetta með því að fjárfestar hafi efasemdir um hagnaðarspár greiningaraðila fyrir bandaríska banka og telji líklegt að greinendur færi niður hagnaðarspár fyrir árið 2008. Það myndi að öllu óbreyttu hækka téðar kennitölur. Ef aftur á móti hagnaðarvæntingar eru eitthvað í líkingu við raunverulegar uppgjörstölur eru tekjur fjármálafyrirtækja verðlagðar mjög ódýrt," segir greiningardeildin.

Í ákjósanlegri stöðu

Það er mat Greiningardeildarinnar að verðkennitölur banka á Norðurlöndum muni fylgja þróun verðkennitalna bandarískra fjármálafyrirtækja. "Hægt er að orða þetta sem svo að norræn fjármálafyrirtæki séu í áskjósanlegri stöðu (e. win-win) að þessu leyti: Þau muni muni elta hærri verðkennitölur í Bandaríkjunum hvort sem kennitölurnar hækka vegna lækkunar hagnaðarspáa eða beinna hækkana á hlutabréfum. Nánar má lesa um þetta í Þróun og horfum sem komu út í síðustu viku," segir hún.