Forsvarsmenn þriggja af stærstu kröfuhöfum Nýsis, Nýja Kaupþings, Nýja Landsbankans (NBI) og SPRON, undirrituðu allir yfirlýsingu þar sem staðfest er að þeir hafi verið upplýstir um, og geri ekki athugasemdir við, sölu Nýsis á byggingarrétti og öllu hlutafé í Situsi fyrir 450 milljónir króna í apríl síðastliðnum.

Kaupandinn var Austurhöfn TR-ehf., félag í eigu íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar. Kröfuhafarnir skuldbinda sig jafnframt til að „andmæla öllum tillögum skiptastjóra í þrotabúinu er lúta að riftun sölunnar“ komi til þess að Nýsir verði tekið til gjaldþrotaskipta. Það gerðist 13. október síðastliðinn.

Situs og Nýsir áttu um 70 prósent af öllum byggingarrétti við Austurhöfn utan þess byggingarreits sem tónlistar- og ráðstefnuhúsið stendur á. Nýsir átti 50 prósenta hlut í Situsi.