Stærstu lánadrottnar Stoða (áður FL Group) hafa samþykkt að veita félaginu stuðning til áframhaldandi greiðslustöðvunar.

Í kjölfar þess hefur stjórn Stoða ákveðið að óska eftir áframhaldandi greiðslustöðvun.

Þetta staðfestir Júlíus Þorfinnsson, upplýsingafulltrúi Stoða í samtali við Viðskiptablaðið en að öllu óbreyttu mun greiðslustöðvun félagsins renna út í dag.

Hann segir að unnið sé að því að greiða úr málum félagsins.

„Við tökum eitt skrefi í einu,“ segir Júlíus. Hann segir að horft sé til þess að selja eignir félagsins og endurskipuleggja rekstur þess.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru gömlu viðskiptabankarnir þrír meðal kröfuhafa. Þá flækir málið að í raun er um sex banka að ræða þar sem kröfurnar liggja ýmist hjá gömlu eða nýju bönkunum. Þá er Straumur einnig á meðal stórra kröfuhafa auk þess sem þýskir bankar hafa tekið sig saman um kröfur í félagið.