Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og formaður framkvæmdanefnda- og eignaráðs Reykjavikurborgar, kynnti áætlanir borgarinnar um framkvæmdir á árinu á Útboðsþingi á föstudaginn. Þar kom fram að borgin hyggst verja rúmum 7 milljörðum til nýframkvæmda og 3,3 milljörðum í rekstur og viðhald.

„Ég held að það sé vel í lagt miðað við umfang Reykjavíkurborgar og miðað við það sem aðrir eru að gera við þessar aðstæður.”

Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar áætlar að verja 4.085 milljónum króna í nýbyggingar á yfirstandandi ári. Hluti af því var þó boðið út á síðasta ári og er nú á framkvæmdastigi. Stærsti liðurinn í byggingaframkvæmdum er á menntasviði, eða 1.480 milljónir króna. Þar er stærsta verkefnið bygging nýs Norðlingaskóla, en búið er að steypa grunn og plötu. Búið er að bjóða verkið út en fyrritæki frá Litháen átti þar lægsta tilboðið, en ekki er búið að ganga frá samningum.

Sæmundarskóli er annað stærsta verkefnið og er hann í austanverðu Grafarholti. Sama liháenska fyrirtækið átti þar lægsta tilboð og var samið við það. Sagði Óskar það vissulega sérkennilegt við þessar kringumstæður þar sem íslenskir byggingariðnaðarmenn eru orðnir atvinnulausir í stórum stíl að samið sé við erlenda verktaka og að sumu leyti að flytja út störfin.

„Aðstæðurnar hafa samt sem áður unnið okkur í hag því eftir að gjaldmiðillinn hrundi, þá er það að mörgu leyti hagstæðara fyrir þessa erlendu aðila að nota íslenskt vinnuafl við framkvæmdina heldur en að flytja það inn. Það er bót í máli ef svo má að orði kveða.”

Óskar sagðist þó vita af mikilli gremju íslenskra verktaka með þessa ráðstöfun. Kom þessi óánægja berlega fram á fundinum á föstudaginn og m.a. var bent á að erlenda verktakafyrirtækið væri þegar komið á eftir áætlun með byggingu Sæmundarskóla. Sagði Óskar ýmsar ástæður fyrir því en verði væri að reyna að leysa þau mál. Viðræður við Litháana varðandi Norðlingaskóla gangi út á að sem flestir Íslendingar geti fengið störf við það verkefni.