Uppgjör stærstu fyrirtækja Kauphallarinnar verða birt í þessari viku, þar með talin uppgjör Landsbankans [ LAIS ] á mánudag, Glitnis [ GLB ] og Straums [ STRB ] á þriðjudag og Kaupþings [ KAUP ] á fimmtudag. Þá birtir Eimskip [ HFEIM ] á miðvikudag og Bakkavör [ BAKK ], Exista [ EXISTA ] og Teymi [ TEYMI ] á fimmtudag. Samtals vega þessi fyrirtæki um 85% í Úrvalsvísitölunni, að því er fram kemur í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Þar segir ennfremur að vonir séu bundnar við að þeirri óvissu sem hafi einkennt fjármálamarkaðinn undanfarna mánuði verði að einhverju leyti eytt þegar spil fjármálafyrirtækjanna hafi verið lögð á borðið.

Landsbankanum spáð 5,9 milljarða króna hagnaði

Uppgjör Landsbankans verður birt eftir lokun markaðar á mánudag. Eins og fram hefur komið í umfjöllun í Viðskiptablaðinu spá greiningardeildir Glitnis og Kaupþings Landsbankanum að meðaltali tæplega 5,9 milljarða króna hagnaði á fjórða fjórðungi ársins. Til samanburðar má nefna að ári fyrr var hagnaður bankans 13,7 milljarðar króna í sama fjórðungi.