Hagar ehf. hafa keypt lager, vörumerki og innréttingar BT verslanna. Að sögn Finns Árnasonar, forstjóra Haga, er í ákveðinni skoðun hvað gert verður við þennan rekstur. ,,Við komum til með að reka verslun eða verslanir undir þessu vörumerki en það verður ekki á þeim nótum sem var gert."

- Er hugsanlegt að BT verslanir verði reknar inn í Hagkaup?

,,Það er hugsanlegt en ég vill ekkert um það segja á þessu stigi. Hvorki játa því né neita."

Að sögn Finns hafa Hagar skuldbundið sig til að taka yfir rúmlega 40 þeirra starfsmanna sem unnu hjá BT. Lagerinn er uppistaðan í kaupunum og Finnur sagði að þeir teldu það góð kaup á þessum tíma enda vara sem keypt er á gömlu gengi. ,,Stærstu verðmætin eru í vörubirgðunum."

Finnur sagði að reynt yrði að setja reksturinn af stað eins fljótt og unnt er.

Síðasta árshlutauppgjör Haga, sem birt var nú í nóvember sýnir að eiginfjárhlutfall félagsins 23,4%. ,,Það er innan marka þó við auðvitað vildum hafa það hærra. Það er fjármunamyndun í svona félögum og fjárfestingar ekki stórkostlegar. Þetta er ásætanlegt og hefur verið lægra í gegnum tíðina. Þetta hefur verið erfitt umhverfi og verður næstu mánuði en ég tel okkar fyrirtæki tiltölulega vel í stakk búið til að fara í gegnum svona niðursveiflu."