Átta af hverjum tíu Bandaríkjamönnum telja að aðgerðir ríkisins til að örva efnahagslífið muni ekki hafa teljandi áhrif á hagkerfið, samkvæmt nýrri könnun. Aðgerðirnar kosta alls 110 milljarða dollara og fela aðallega í sér stærri skattaendurgreiðslur.

Könnunin var framkvæmd af CNN daga 28-30. apríl. 82% telja að aðgerðirnar muni hafa lítil áhrif, en til samanburðar var þetta hlutfall 70% í febrúar á þessu ári. Væntingar bandarískra neytenda eru því að versna hratt.

Samkomulag um aðgerðirnar var gert með þverpólitískri sátt fyrr á þessu ári. Flestir einhleypir Bandaríkjamenn með árstekjur upp á 75 þúsund dollara eða minna munu fá allt að því 600 dollara endurgreidda frá skattinum, og gift pör sem þéna samtals minna en 150 þúsund dollara á ári fá allt að 1200 dollara endurgreidda.

Um 45% þeirra sem svöruðu hugðust ætla að nota endurgreiðsluna í að borga reikninga, og um 22% hugðust leggja hana inn á bankareikning.