„Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn og munu ekki sætta sig við það að vera meðhöndlaðir sem slíkir," sagði Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks,  á Alþingi í dag í lokaumræðu um frumvarp um fjárhagslega fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

Frumvarpið var samþykkt með 53 samhljóða atkvæðum.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins var Sigurður Kári og meðflutningsmenn voru þingmenn úr öllum flokkum. „Samþykkt þessa frumvarps felur í sér mikil pólitísk tíðindi: yfirlýsingu fra Alþingi Íslands um það að Alþingi sætti sig ekki við að bresk stjórnvöld beiti Íslendinga og íslenska hagsmuni hryðjuverkalögum," sagði Sigurður Kári enn fremur í umræðum um frumvarpið.

Aðrir þingmenn, sem tóku til máls í þriðju umræðu, tóku í sama streng.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði til að mynda að með samþykkt frumvarpsins væri Alþingi að senda mjög sterk skilaboð. „Alþingi vill að það verði farið í mál við Breta," sagði hann.

Fundum þingsins frestað á mánudag

Auk þessa máls voru átta þingmál afgreidd frá þingí í dag. Stefnt er að því að fundum Alþingis verði frestað á mánudag og fram til 20. janúar næstkomandi.

Ekki náðist að afgreiða fjárlagafrumvarpið í dag og önnur mál og eru þau á dagskrá þingsins á mánudag.