Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Aron Ólafsson formaður Stúdentaráðs tóku skóflustungu að nýjum stúdentagörðum í Brautarholti í dag. Stefnt er að því að húsin verði tilbúin í ágúst á næsta ári.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að í Brautarholti 7, á milli Mjölnisholts og Ásholts, muni rísa tvö hús. Húsin verða alls um 4.700 fermetrar með 102 litlum íbúðum fyrir barnlausa stúdenta. Íbúðalánasjóður fjármagnar 90% framkvæmdanna og Félagsstofnun stúdenta það sem upp á vantar.

„Með framkvæmdunum er leitast við að svara eftirspurn eftir stúdentaíbúðum en 800 námsmenn voru á biðlista eftir húsnæði að úthlutun lokinni sl. haust og útlit er fyrir að þeir verði töluvert fleiri nú í haust. Leigueiningar á Stúdentagörðum eru í dag um 1.100 og í þeim búa um 1.800 manns, stúdentar við HÍ og fjölskyldur þeirra,“ segir í tilkynningunni.