Í dag, 1. desember, fagna Íslendingar afmæli fullveldisins og halda stúdentar daginn sérstaklega hátíðlegan hefðinni samkvæmt. Dagskráin hefst klukkan ellefu með Hátíðarmessu stúdenta í Kapellunni í skólanum þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, þjónar fyrir altari og Oddur Bjarni Þorkelsson stúdent prédikar.

Klukkan tólf á hádegi ganga stúdentar ásamt rektor frá Aðalbyggingu Háskóla Íslands að leiði Jóns Sigurðssonar og leggja blómsveig að leiðinu. Þar mun stúdentinn María Rut Kristinsdóttir flytja hugvekju og Háskólakórinn syngur þrjú lög.Því næst tekur við hátíð brautskráðra doktora sem nú er haldin öðru sinni og taka þar 43 doktorar, sem varið hafa ritgerðir sínar við skólann síðastliðið ár, við gullmerki háskólans að viðstöddum forseta og mennta- og menningarmálaráðherra.

Að lokum verður brugðið út af vananum þegar stúdentar opna hinn nýja Stúdentakjallara við hátíðlega athöfn klukkan 17.