„Við erum í raun og veru bara mjög hamingjusöm,“ segir María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, tilkynnti í dag að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli stúdentaráðs gegn LÍN yrði ekki áfrýjað.

Í tilkynningu frá ráðherra sagði að með ákvörðun sinni vildi ráðherra eyða þeirri óvissu sem risið hafði í málefnum námsmanna í kjölfar dómsins. Hann sagðist einnig telja að áfrýjun dómsins myndi meðal annars viðhalda óvissu þar sem niðurstaða í Hæstarétti fengist mögulega ekki fyrr en eftir að haustannarpróf hefjast hjá nemendum. „Það er gott það er búið að eyða óvissunni. Það voru margir sem voru farnir að óttast um haustið,“ segir María Rut í samtali við VB.is.

Hún segir að stúdentar hafi unnið fullnaðarsigur í þessu máli. „Við lögðum upp í þessa baráttu með engum fyrirvara,“ segir hún og tekur fram að það hafi nú fengist staðfest að það hafi verið rétt ákvörðun að höfða málið.