Stúdentaráð hefur sent út fréttatilkynningu vegna frétta um að ráðið hygli eigin bóksölu á kostnað ódýrari keppinauta, eins og haft var eftir Guðmundi Magnasyni, framkvæmdastjóra Heimkaupa.

„Stúdentaráð selur fyrirtækjum ekki aðgang að póstlista sem er undir umsjón Stúdentaráðs, og inniheldur netföng allra nemenda Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningu ráðsins.

„Þá reglu hefur Stúdentaráð ekki hugsað sér að brjóta fyrir Heimkaup frekar en önnur fyrirtæki, en Heimkaup hefur verið boðin sama þjónusta og öðrum sem óska eftir að kaupa aðgang að póstlista nemenda.

Boðið að auglýsa og birta afslætti

Þann 16. september var Heimkaup boðið að auglýsa í Stúdentablaðinu auk þess að auglýsa afslátt til nemenda, bjóði þeir slíkan, á www.student.is/afslaettir líkt og öðrum sem auglýsa afslætti til nemenda.

Þann 3. nóvember var Heimkaup boðið á ný að auglýsa í Stúdentablaðinu. Á þeim tíma hafði Heimkaup einungis áhuga á póstsendingu til nemenda.

Eftir áramót hafði Heimkaup enn og aftur samband og bauðst nú til að greiða fyrir sendinguna líkt og þeir sögðust hafa gert í öðrum háskólum. Óskinni var enn neitað af fyrrgreindum ástæðum.

Þetta kemur þó ekki fram í fréttinni, heldur lítur einungis út fyrir að nemendafélög allra annarra háskóla hafi tekið erindi Heimkaup.is vel og kynnt rafbókasölu Heimkaupa fyrir nemendum.

Svo því sé haldið til haga þá bregst Stúdentaráð einnig vel við því að selja auglýsingar á miðla á vegum Stúdentaráðs en mun sem fyrr ekki veita aðgang að póstlista nemenda.

Stúdentaráð setur spurningamerki við einhliða umfjöllun Morgunblaðsins, mbl.is og vb.is um mál Heimkaupa og telur furðulegt að ekki hafi verið haft samband við Stúdentaráð, Félagsstofnun stúdenta eða Bóksölu stúdenta við vinnslu fréttanna. Vonar Stúdentaráð að slíkt verði það gert í framtíðinni.“