Framkvæmdastjóri vefverslunarinnar Heimkaup.is, Guðmundur Magnason, segir Stúdentaráð Háskóla Íslands, hafa neitað fyrirtækinu um kynningu á rafrænum kennslubókum sem verslunin bjóði upp á en er í samkeppni við Bóksölu stúdenta.

Bóksala Stúdenta selur rafbækur líkt og aðrar bækur, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er sífellt að færast í aukana að stúdentar noti sér rafbækur í náminu.

Bjóða upp á frían prufuaðgang

„Við erum að kynna þessa nýjung sem er ódýrari kostur fyrir nemendur,“ segir Guðmundur í samtali við Morgunblaðið , en hann segir BS kaupa sínar bækur frá heildsölu sem auki kostnað nemenda.

„Við höfum samið við okkar birgja beint og getum boðið okkar viðskiptavinum að bæði kaupa og, í mörgum tilfellum, að leigja bækurnar. Að auki höfum við boðið 14 daga frían prufuaðgang, sem er nokkuð sem samkeppnisaðilar okkar hér á landi bjóða ekki upp á.“

Önnur nemendafélög heimiluðu kynningu

Guðmundur segir að nemendafélög allra annarra háskóla hafi tekið erindi verslunarinnar vel og kynnt bóksöluna fyrir nemendum, en hann hafi síðan komið að læstum dyrum hjá SHÍ.

„Það er skrýtið að kynna ekki ódýrasta kostinn. Nemendur hafa nú ekki mikla peninga á milli handanna, það vita allir. Ég vil meina að ástæðan fyrir þessu sé hagsmunaárekstur, þar sem stúdentaráð rekur sína eigin bóksölu.“

Verðmunur frá um 25 þúsund í 5 þúsund

Segist hann ekki hafa fundið neina bók sem sé í sölu hjá sér sem sé ódýrari hjá Bóksölu Stúdenta. Morgunblaðið gerði lauslegan verðsamanburð á bókinni Introduction to Pharmaceutical Chemical Analysis, sem er notuð á þessu misseri við skólann.

Kostar hún 25.899 krónur á vef Eymundsson, 24.180 krónur á vef E-bóka, 24.920 krónur á vef Bóksölu Stúdenta, og 4.890 krónur á vef Heimkaupa, en auk þess sé bók Heimkaupa í gagnvirku lesforriti, Vital Source, meðan hinar bóksölurnar selja bókina á pdf formi.

Frétt uppfærð vegna viðbragða SHÍ

Stúdentaráð hefur brugðist við fréttaflutningi af málinu og tekur meðal annars fram að SHÍ selji ekki aðgang að póstlistum nemenda, en segir Heimkaupum hafa verið boðið að auglýsa í Stúdentablaðinu og afsláttarsíðum nemenda.