Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir ekki þörf á hækkun endurgreiðsluhlutfalls fyrir kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð, sem í dag er 25%. Þetta kemur fram í pistli sem hún birti á facebook-síðu sinni í gær.

Hún segir aðra þættir skipta jafn miklu ef ekki meira máli fyrir samkeppnishæfni landsins sem tökustaðar í alþjóðlegu samhengi, og tekur dæmi af byggingu stórra kvikmyndavera, sem laðað geti að langtímaverkefni á borð við þáttaraðir. Í því sambandi sé nú formlega til skoðunar upptaka viðbótarívilnunar fyrir stærri verkefni.

Útgreiddir styrkir námu 2,4 milljörðum króna í fyrra og tvöfölduðust milli ára, þar af rúmur helmingur vegna erlendra verkefna, sem hún segir til marks um samkeppnishæfni íslenska kerfisins. Auk þess hafa þegar verið gefin vilyrði fyrir 3,5 milljarða endurgreiðslum í dag.

Í heimsókn sinni til yfirmanna sex helstu kvikmyndaframleiðenda í Los Angeles í fyrra segir Þórdís að þau hafi öll látið vel af íslenska ívilnanakerfinu, og enginn hafi lagt sérstaka áherslu á hækkun endurgreiðsluhlutfallsins.

Frekar hafi verið minnst á að gott væri ef í boði yrðu viðbótarívilnanir fyrir að ná tilteknum markmiðum yfirvalda, til dæmis að miðla þekkingu sinni markvisst til íslenskra starfsmanna.

Loks segir hún grundvallaratriði að almenn sátt ríki um styrkjakerfið; standa þurfi vörð um þá sátt sem nú ríki. Því þurfi að rökstyðja vel allar breytingar á kerfinu, sem hún segist styðja, enda skili það þjóðinni verulegum og margvíslegum ávinningi.