Félagið Bergrisi og Verkís verkfræðistofa hafa stofnað félagið Sannir Landvættir. Markmiðið með stofnun félagsins er stuðla að uppbyggingu á ferðamannastöðum um land allt í samvinnu við fyrirtæki, landeigendur, sveitarfélög og ríki. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fyrirtækið hyggst bjóða upp á fjármögnun, hönnun og framkvæmd við uppbyggingu ferðamannastaða án kostnaðar eða útgjalda fyrir landeigendur. Íslandsbanki er bakhjarl verkefnis og mun annast fjármögnun. Sannir Landvættir mun annast alla þætti framkvæmda við ferðamannastaði.

Fyrirtækið mun einnig leggja til búnað og hugbúnað til að hefja gjaldtöku af þjónustu af viðkomandi stöðum.

Fimm daga að svara hverri umsókn

„Við erum tilbúin að taka á móti umsóknum og við ætlum okkur ekki nema fimm virka daga til svara hverri umsókn. Þetta verkefni nær til alls landsins og við skoðum allar umsóknir. Við höfum nú þegar mikilvæga reynslu af verkefnum af þessum toga og munum við nýta hana landeigendum og náttúru til hagsbóta.

Gjaldtöku er ætlað að standa undir uppbyggingu og rekstri á þeim stöðum þar sem við munum koma að og gerum við samninga við landeigendur um skiptingu á tekjum. Kostir gjaldtöku eru aukið þjónustustig og aðstaða á viðkomandi stað þannig að ferðamenn eru ekki að greiða gjald fyrir aðgang,“ segir Arnór Þ. Sigfússon, framkvæmdastjóri Sannra Landvætta, við stofnun fyrirtækisins.

Mikil þörf á uppbyggingu ferðamannastaða

Í fréttatilkynningunni er jafnframt tekið fram að mikil þörf sé á uppbyggingu ferðamannastaða um land allt. „Bæði til að tryggja betri umgengni um eftirsótta staði og um leið að auðvelda aðgengi og stuðla að bættu öryggi ferðamanna. Með stofnun Sannra Landvætta býðst nýr valkostur fyrir landeigendur sem vilja ráðast í uppbyggingu sinna landsvæða. Hægt er að hefjast handa nú þegar, eða um leið og skipulag svæða leyfir,“ er einnig tekið fram.