Auk þess að stýra einum stærsta lífeyrissjóði landsins, Almenna lífeyrissjóðnum, hefur Gunnar Baldvinsson gefið út bækur um fjármál einstaklinga, lífeyrismál og eftirlaunasparnað. Hann bendir á að víðast hvar séu fjármál ekki meðal námsefnis í grunnskólum og jafnvel ekki heldur á næsta skólastigi. Þannig hafi þjóðfélög heimsins hingað til almennt ekki séð ástæðu til að undirbúa ungt fólk fyrir fjármál fullorðinsáranna, þrátt fyrir mikilvægi þeirra. Vísar Gunnar til orða ítalska hagfræðiprófessorsins Annamaria Lusardi til að undirstrika mikilvægið: „Nú á dögum ætti fjármálalæsi að vera metið til jafns við grunnmenntun, það er færnina til að lesa og skrifa. Án þekkingar á fjármálum geta einstaklingar eða samfélög ekki ekki notið sín til fulls."

Bókaútgáfuferill Gunnars hófst árið 2004 er fyrsta bók hans, Verðmætasta eignin, var gefin út. „Bókin fjallar um lífeyrismál og eftirlaunasparnað, sem hefur verið minn starfsvettvangur til fjölda ára. Á þessum tíma fannst mér skorta eitt heildstætt rit með samantekt á því hvernig íslenska lífeyriskerfið virkar og ráðgjöf um eftirlaunasparnað."

Rúmur áratugur leið þar til næsta bók Gunnars, Lífið er framundan, kom út en umrædd bók var hugsuð fyrir ungt fólk sem er að byrja að búa og hefja störf á vinnumarkaði. „Ég fékk áskorun um að skrifa bók um fjármál fyrir ungt fólk. Mér hafði ekki dottið það í hug en fannst þetta frábær hugmynd."

Fljótt að vinda upp á sig

Bókin hafi upphaflega verið hugsuð sem ráðgjafarbók fremur en kennslubók á skólastigi. „Strax á kynningarfundinum fyrir Lífið er framundan komu að máli við mig tveir framhaldsskólakennarar og spurðu mig hvort ég teldi að bókin gæti nýst sem kennslubók í framhaldsskólum. Ég kvaðst telja að bókin gæti nýst á efsta stigi," segir Gunnar. Í kjölfarið hafi útgefandi bókarinnar varpað fram þeirri hugmynd að Gunnar myndi skrifa aðra bók sem gæti nýst sem kennslubók á framhaldsskólastigi. Bókin, Lífið er rétt að byrja, kom svo út í byrjun árs 2017.

„Bókin var varla komin út þegar ég fékk fyrirspurnir um hvort ég teldi að bókin hentaði einnig fyrir grunnskóla. Mér fannst ákveðið efni í bókinni geta hentað til kennslu í grunnskólum og þá kom upp sú hugmynd að gefa út styttri og einfaldari bók sem byggði á Lífið er rétt að byrja." Þannig varð til bókin Fyrstu skref í fjármálum, sem búið er að dreifa í um 8 þúsund eintökum í grunnskóla landsins. Bókinni hefur auk þess verið snarað yfir á ensku og gefin út á erlendri grundu. „Það tókust samningar við Samtök evrópskra banka um að gera enska útgáfu af bókinni. Hún kom svo út vorið 2019. Ég tók út allt sem er séríslenskt og breytti henni þannig að hún hentaði á alþjóðavísu," segir Gunnar og bætir við:

„Í gegnum bókaskrifin hef ég kynnst mörgum kennurum og öðru fólki sem er að berjast fyrir því að koma fræðsluefni um fjármál einstaklinga inn í skólana. Það hefur hvatt mig áfram, þar sem ég vil styðja við bakið á þessu fólki. Ég hef einnig unnið náið með Fjármálaviti, sem er metnaðarfullt verkefni á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja og Landssamtaka lífeyrissjóða. Fjármálavit hefur farið í grunnskólana og byggt námsefnið á bókinni Fyrstu skrefum í fjármálum auk þess að styðja við kynningu og dreifingu á Farsælum skrefum í framhaldsskólum. Ég hef einnig haft mjög mikla ánægju af því að geta stutt við bakið á þessu verkefni og því fólki sem leiðir það með miklum myndarskap."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .