Náttúrulegar aðstæður til landbúnaðarframleiðslu eru að mörgu leyti verri hérlendis en á meginlandi Evrópu og stuðningskerfi íslenskra stjórnvalda því mjög frábrugðið því sem Evrópusambandið styðst við. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu aðildarviðræðna við ESB og þróun þess. Skýrslan var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun og mun Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kynna hana á Alþingi á morgun. Í skýrslunni segir að mikilvægast sé þó líklega að stuðningur við landbúnað er meiri hér á landi en væri samkvæmt styrkjakerfi Evrópusambandsins.

Skýrsluhöfundar segja styrkjakerfi Evrópusambandsins hafa fjarlægst styrkjakerfi við landbúnað hér á landi. Hitt sé þó óvíst hvort það torveldi íslenskum bændum að laga sig að kerfi Evrópusambandsins.

Í skýrslunni segir ennfremur að stuðningur til framleiðenda landbúnaðarafurða hérlendis er annars vegar að mestu leyti í formi framleiðslustyrkja og hins vegar í formi umfangsmikillar tollverndar. Starfsumhverfi og lagaumgjörð stuðningskerfisins hér sé þar af leiðandi eðlisólík því kerfi sem komið hefur verið á fót innan Evrópusambandsins.