Aðeins þriðjungur þeirra sem kusu annan hvorn stjórnarflokkinn í síðustu kosningum ætlar að kjósa sama flokk í komandi þingkosningum, samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2, en greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Fylgi flokkanna hefur verið á mikilli hreyfingu síðustu vikur og mánuði. Algengt er að 30 til 40 prósent kjósenda færi sig á milli flokka milli kosninga, en nú má sjá mun meiri hreyfingu hjá sumum flokkum og minni hjá öðrum. Þeir kjósendur sem studdu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum virðast trúastir sínum flokki. Alls ætla 84,9 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast að gera það aftur núna. Af þeim sem ætla að leita á önnur mið eru langsamlega flestir, um 9,4 prósent, sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Nær helmingur þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum er líklegur til að kjósa aðra flokka í komandi þingkosningum. Alls sögðust 53,4 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast ætla að gera það aftur. Athygli vekur að þorri þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast, 40,5 prósent, styður Framsóknarflokkinn í dag.