Aðeins eru 89 dagar þangað til kosið verður milli Barack Obama og Mitt Romney um hvor þeirra gegnir embætti forseta Bandaríkjanna.

Mikil harka hefur færst í leikinn að undanförnu og finnst mörgum kosningabaráttan vera orðin ómálefnaleg.

Samkvæmt Galllup í Bandaríkjunum eru frambjóðendurnir hnífjafnir, Obama með 47% og Romney með 46%. Hins vegar hafa margar aðrar kannanir sýnt að Obama er yfir.

Líkt og í síðustu kosningunum spila svokallaðir Super PACs stórt hlutverk. Um er að ræða félög sem kosningaeftirlitsnefnd (e. Political action committee) hefur ekki lögsögu yfir. Því geta einstaklingar og fyrirtæki gefið takmarkalaust í þessi félög, sem aftur taka sér stöðu með einhverjum málsstað eða frambjóðendum.

Eitt slíkt félag sem er hliðhollt Obama forseta hefur gert auglýsingu. Þar sakar Joe Soptic, eiginmaður konu sem lést úr krabbameini Mitt Romney að eiga aðild að dauðsfalli hennar.

Maðurinn missti starf sitt í stálsmiðju sem var lokað. Meðal eiganda var Bain Capital, fyrirtæki sem Romney átti hlut í og starfaði fyrir. Við það missti maðurinn sjúkratryggingu sína og því fékk konan ekki nægilega góða læknismeðferð að mati eigimannsins.

Andstæðingar Obama hafi krafist þess að birtingu auglýsingarinnar verði hætt. Þeir segja að engin tengsl séu milli Romney og dauðfalls konunnar.