Bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor's staðfesti í dag lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum og er ástæðan samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu öðru fremur fimmta endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og Íslands auk þess sem Norðurlöndin hafa framlengt, eða eru við það að framlengja, lánalínur sínar til Íslands.

Í tilkynningunni segir: „Þrátt fyrir að íslenskir kjósendur hafi í annað sinn hafnað þeim samningum sem ríkisstjórnin gerði við Breta og Hollendinga um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu - sem setti samstarf landsins við AGS í hættu - teljum við að AGS og Norðurlöndin muni halda áfram að lána landinu ... Þetta ætti að fullnægja fjármögnunarþörf Íslands í erlendum gjaldmiðlum fyrir næstu árin."

Jafnframt kemur þar fram að sveigjanleiki íslenska hagkerfisins styðji við einkunn ríkissjóðs sem fjárfestingarhæfur.

Í tilkynningunni segir jafnframt að þökk sé gjaldeyrishöftum sé einkunnin í íslenskum krónum ekki lækkuð meira en raun ber vitni, um einn flokk í BBB-. „Við lækkuðum einkunn langtímaskuldbindinga í krónum og settum á neikvæðar horfur á einkunnir í bæði krónum og erlendum gjaldmiðlum vegna hárrar skuldabyrði landsins í erlendum krónum sem og ríkissjóðs.  Við teljum þessa skuldabyrði geta aukist ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöft sem takmarka möguleika innlendra aðila til þess að fjárfesta erlendis og erlendra aðila til að skipta krónueignum í erlendar eignir," segir í tilkynningunni.