Seðlabankinn er tregur til að sýna spilin og lætur hjá líða að segja hvað hann er að hugsa, að sögn greiningardeildar Arion banka. Deildin segir inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði í dag með það fyrir augum að halda gengi íslensku krónunnar yfir „markaðsvirði“ með handafli geta í besta falli skilað litlum árangri. Í versta falli geta inngripin orðið afar kostnaðarsöm. Greiningardeildin segir í Markaðspunktum sínum í dag í raun óábyrgt að nýta skuldsettan gjaldeyrisforða til inngripa nema að mjög vel ígrunduðu máli.

„Ef markmið bankans er að halda krónunni yfir „markaðsvirði“ með handafli, þá óttumst við að í besta falli geti sú aðgerð orðið árangurslítil, en í versta falli afar kostnaðarsöm. Þótt það sé hægur leikur og tiltölulega ódýr að styðja við krónuna í einn dag þá yrði það óbærilegt fyrir gjaldeyrisforðann ef bankinn héldi áfram að taka á móti útflæði fjármagns í hvert sinn sem þess gætti,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildarinnar.

Seðlabankinn vildi ekki upplýsa um ástæður viðskipta á millibankamarkaði með gjaldeyri í dag að öðru leyti en því að bankinn hafi þá stefnu að eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði þegar þörf krefur. Það sé gert í því skyni að draga úr gengissveiflum. Í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins er vísað til þess að upplýsingar um viðskipti Seðlabankans á millibankamarkaði séu birtar með tveggja daga töf.

Evran ódýrari í dag en í gær

Seðlabankinn seldi evrur fyrir krónur á millibankamarkaði í nokkrum skrefum, eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst fjölmiðla frá í morgun. Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur upphæðin hækkað frá fyrstu viðskiptum bankans í morgun og nam hún um miðjan dag yfir 9 milljónum evra, jafnvirði rúmra 1,5 milljarða króna.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag er fjallað um veikingu krónunnar í janúar. Í gær kostaði evran um 174 krónur og einn Bandaríkjadalur 128,9 krónur og hafði krónan ekki verið veikari síðan í mars árið 2010. Í kjölfar aðgerða Seðlabankans í morgun lækkaði gengisvísitalan um 3,7% og var hún á svipuðum slóðum og rétt eftir áramótin. Undir lok dagsins kostaði ein evra 171,58 krónur og einn Bandaríkjadalur 126,29 krónur.