Aðgerðir Seðlabankans hafa dregið úr hættu á frekari gengislækkun krónunnar, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann benti m.a. á það á fundi þar sem hann og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri gerðu grein fyrir vaxtaákvörðun bankans, að frá áramótum hafi Seðlabankinn varið fjórum milljörðum króna til stuðnings krónunni með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Því til viðbótar nemur samningur Seðlabankans vegna skilyrt skuldabréf Landsbankans 6 milljörðum króna.

Seðlabankinn getur beitt sér enn frekar á markaðnum ef hann telur þörf á slíku, að sögn Más:

„Við höfum heilmikið í kistunum fyrir gjaldeyri sem við keyptum á mun lægra verði en við erum nú að selja hann á,“ sagði Már.