Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir stuðning Arion banka við Pennann skekkja markaðinn og þar af leiðandi sé hann skaðlegur en eins og fram kom á vb.is í gær með vísan í frétt Fréttablaðsins hefur Arion lagt félaginu til 200 milljóna króna hlutafé. Orri segir það ótækt að félag sé enn í mjúkum faðmi bankanna eftir þrjú ár.

„Í þessu tilfelli eru það húsgagnaframleiðendur sem eru að keppa við starfsemina og finnst sú staða sem er komin upp mjög ójöfn og ósanngjörn. Við höfum almennt verið að berjast fyrir því að bankarnir séu ekki að halda lífinu í starfsemi sem er ekki sjálfbær," segir Orri í samtali við Fréttablaðið.

Þar er einnig rætt við húsgagnaframleiðendur sem eru í samkeppni við Pennann. Guðmundur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Á. Guðmundsson, segist velta fyrir sér hvort framlegð og afkoma skipti engu máli hjá Pennanum. Þá segir Skúli Rósantsson, eigandi Casa, Pennann hafa verið að eltast við sína birgja árum saman.