Nokkur hreyfing er á fylgi stjórnmálaflokka samkvæmt nýjasta þjóðapúlsi Gallup.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig þremur prósentustigum mili mánaða. Samfylking og Björt framtíð bæta einnig lítillega við sig en vinsældir Pírata, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokksins minnka.

Þrátt fyrir að missa örlítið fylgi eru Píratar ennþá stærstir með tæplega 35% fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn er með 24,4%, Vinstrihreyfingin er með tæplega 11%, Framsókn og Samfylkingin eru með um 10% og Björt framtíð tæplega 6%.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um tvö prósentustig milli mánaða og er nú í 36%.

Tæplega 11% tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp. Um 9% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Spurt var:
Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?
Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?
Styður þú ríkisstjórnina?

Könnunin var gerð af Gallup dagana 27. ágúst til 29. september 2015. Heildarúrtaksstærð var 8.674 og þátttökuhlutfall var 55,7%.