Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna milli janúar og febrúar samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi við ríkisstjórnina minnkar um tæplega 7% milli mánaða, en 64% þeirra sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina.

Fylgi Miðflokksins eykst um tæplega 2% milli mánaða, úr 7% í 9%. Breytingar á fylgi annarra flokka eru tölfræðilega ómarktækar. Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn minnkar um 2% milli mánaða en tæplega 24% segjast myndu kjósa flokkinn. Breytingar á fylgi annarra flokka eru á bilinu 0,3-1,2%.

Ef kosið yrði til Alþingis segjast nær 17% myndu kjósa Vinstri græn, rúmlega 15% Samfylkinguna, um 12% Pírata, nær 7% Viðreisn, um 6% Flokk fólksins og rúmlega 2% aðra flokka, þar af 1,3% Bjarta framtíð. Um 6% svarenda myndu skila auðu eða ekki kjósa.

Spurt var:

  • Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
  • En hvaða flokkur yrði líklegastur fyrir valinu?
  • Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?
  • Styður þú ríkisstjórnina?

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 28. febrúar 2018. Heildarúrtaksstærð var 5.564 og þátttökuhlutfall var 55,3%.