Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um nær sjö prósentustig milli mælinga og segjast rúmlega 55% þeirra sem taka afstöðu styðja hana. Þetta kemur fram í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup , en stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki mælst hærri síðan í apríl 2018.

Í Þjóðarpúlsinum kemur fram að meiri stuðningur hafi mælst við ríkisstjórnina seinni hluta marsmánaðar en fyrri hluta hans, en rösklega 59% sögðust styðja stjórnina seinni hluta mánaðarins samanborið við tæplega 52% fyrri hluta hans.

Miðflokkur og sósíalistar tapa fylgi

„Helstu breytingar á fylgi flokka frá síðustu mælingu eru að Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn tapa fylgi eftir mikla fylgisaukningu í febrúar. Fylgi Miðflokksins minnkar um þrjú prósentustig, en rúmlega 11% þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag. Fylgi Sósíalistaflokksins minnkar um tæplega tvö prósentustig, en ríflega 3% segjast myndu kjósa flokkinn nú,“ segir í Þjóðarpúlsinum.

Þar segir jafnframt að fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða, eða um 0,1-1,5 prósentustig. Rösklega 23% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, liðlega 15% Samfylkinguna, ríflega 13% Vinstri græn, um 11% Viðreisn, rúmlega 10% Pírata, liðlega 8% Framsóknarflokkinn og rúmlega 4% Flokk fólksins. Liðlega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og sama hlutfall tekur ekki afstöðu eða neitar að gefa hana upp.