Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir  mokfiskirí og stunda verði aðgæsluveiðar. Skipin hafa verið að veiðum allt að 3 sjómílum frá landi og Jón segir í raun hægt að veiða mun meira ef aðstæður leyfðu.

Verið var að landa úr Bergey í Vestmannaeyjahöfn þegar rætt var við Jón fyrr í vikunni. Alls um 85 tonn af þorski og ýsu af vænstu gerð. Bergey kom úr síðasta róðri aðfaranótt þriðjudagsins og ekki var áformað að fara aftur til veiða fyrr en í kvöld, fimmtudagskvöld, aðallega vegna lokana á vestursvæðinu vegna hrygningarstopps. Í staðinn verði sótt meira í ýsu og ufsa meðan á því stendur.

„Við komum með fullt skip eða eins mikið og það getur borið. Við byrjuðum á Selvogsbanka vestur af Surt. Þar er alveg haugur af þorski. Þarna tókum við eingöngu þorsk alveg fram að hrygningarstoppi sem tók gildi þarna. Í framhaldinu keyrðum við austur í Síðugrunn og þar er mikið af ýsu,“ segir Jón.

Stútfullt af ýsu

Þær eru ófáar vertíðirnar sem Jón hefur róið og hann segir þessa ekkert ólíka öðrum. Það sé alltaf mokfiskirí á þessum tíma. Það sem er öðruvísi núna er hvað ýsan er að koma sterkt inn í veiðina. Mikil ýsugegnd sé við Suðausturland og Suðurland og líklega mun víðar. Hann segir stöðuna hvað varðar heimildir til ýsuveiða þokkalega gagnvart sér og sínum mönnum en mikil ýsugegnd geti orðið til vandræða fyrir marga.

„Það þyrfti að bretta upp ermarnar og laga til í þeim efnum og auka ýsukvótann.“

Jón segir þorskinn nær köntunum ögn blandaðan í stærðum en mest sé þetta 4-6 kílóa fiskur. Mun stærri fiskur heldur sig grynnra. Ný Bergey kom í október 2019 og var eitt sjö sams konar skipa sem skipasmíðastöðin Vard smíðaði fyrir íslenskar útgerðir. Það er tæpir 29 metrar á lengd og má því samkvæmt reglugerðum vera við veiðar í allt að 3 sjómílur að landi.

„Sérstaklega þessa dagana hefur verið mokfiskirí og menn verða bara að stunda aðgæsluveiðar. Annars er hætta að því offylla trollið og það þarf að passa sig á því.“

940 tonn í mars

Systurskip Bergeyjar er Vestmannaey VE þar sem Birgir Þór Sverrisson er skipstjóri. Skipin hafa verið saman á veiðum og Jón grípur til myndlíkingar og talar um „copy/paste“ í þessu samhengi. Þeir séu nánast í kallfæri úti á dekki. Stóri munurinn á gömlu og nýju Bergey sé breiddin, sem ríflega einum metra meiri og vinnuaðstaðan til aðgerðar á millidekki er betri. Hún sé hægari yfir en býr yfir mun meiri togkrafti sem nýtist við veiðarnar sjálfar.

„Vertíðin er í hámarki núna og stendur út apríl og eitthvað inn í maí. Fiskurinn virðist mikið stefna inn á Selvogsbankann. Þar virðast alltaf kjöraðstæður fyrir hann að hrygna.“

Jón segir að vertíðin hafi byrjað af krafti strax í janúar og góður gangur verið á þessu allan tímann. Í mars kom Bergey með um 940 tonn að landi og það stefni í annað eins í apríl. Honum finnst veiðin samt heldur meiri núna en í fyrra en vandinn sé sá menn fá ekki að fiska eins og þeir vilja helst.

„Það er lítið mál þannig séð að fiska en spurningin frekar sú hvað manni leyfist að gera. Þetta er svo vænn fiskur að þetta verður allt svo mikið auðveldara. En vinnslan stýrir mikið veiðunum og svo auðvitað bara kvótastaðan. Svo er nú bara plágan að setja stórt strik í reikninginn, það er að segja í markaðina úti. Síðasta vertíð var mjög lituð af Covid og þessi líka.“