Stundin, nýr fjölmiðill sem fyrrverandi blaðamenn á DV hafa stofnað, hefur slegið met á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund . Söfnun Stundarinnar á vefsíðunni hófst í gærkvöldi, mánudaginn 5. janúar, kl. 23.00. Nú þegar hefur Stundin náð 20 prósentum af markmiðum sínum, en það mun vera besta byrjun sem nokkur söfnun hefur fengið á Karolina Fund.

Stundin er nýr fréttamiðill, en Viðskiptablaðið greindi fyrst miðla frá stofnun hans í desember síðastliðnum. Stofnendur Stundarinnar eru Elín G. Ragnarsdóttir, Heiða B. Heiðars, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Jón Ingi Stefánsson og Jón Trausti Reynisson. Ingibjörg Dögg og Jón Trausti munu ritstýra Stundinni, en Jón Trausti verður jafnframt framkvæmdastjóri.