Útgáfufélagið Stundin, sem heldur utan um rekstur samnefnds fréttamiðils, skilaði 1 milljón króna tapi á síðasta ári.

Árið áður hagnaðist miðillinn um 7 milljónir króna. Tekjur félagsins námu 234 milljónum króna og hækkuðu um 9 milljónir króna milli ára, eða 4%. Eignir félagsins stóðu í 40 milljónum króna í lok síðasta árs, skuldir í 26 milljónum og eigið fé 14 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 36%.

Laun og launatengd gjöld, sem var stærsti útgjaldaliður félagsins í fyrra, námu 127 milljónum króna en á síðasta ári voru stöðugildi félagsins tólf.

Hluthafar Stundarinnar eru alls fimmtán talsins og eiga sjö þeirra meira en 10% hlut. Jón Trausti Reynisson er framkvæmdastjóri Stundarinnar, en hann á 12,2% hlut í félaginu. Ritstjóri Stundarinnar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, á einnig 12,2% hlut í félaginu.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.