Fjölmiðilinn Stundin tapaði sextán milljónum króna, fyrir skatta, á síðasta ári. Fyrirtækið hagnaðist um níu milljónir fyrir skatta árið 2018. Rekstrarkostnaður Stundarinnar jókst um 32 milljónir króna milli ára og nam 202 milljónum. Tekjur Stundarinnar jukust einnig og námu 186 milljónum á síðasta ári, að því er segir í Fréttablaðinu.

Launakostnaður jókst um fimmtung milli ára eða 18,5 milljónir en stöðugildi félagsins voru tólf í lok árs 2019. Eigið fé nam þrettán milljónum og dróst saman um sex milljónir milli ára. Eiginfjárhlutfall Stundarinnar nam þrettán prósentum við árslok.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að rekstur fyrirtækisins á liðnu ári hafi tekið mið af fyrirhuguðum ríkisstyrk til einkarekinna fjölmiðla, sem kynnt var árið 2018. Fallið var frá þeim áætlunum og í stað veitt sértækan rekstrarstuðning vegna veirufaraldursins. Enn fremur kemur fram að líklegt sé að stuðningur verði minni en áður var boðað fyrir smærri fjölmiðla en meiri fyrir þá stóru.

Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjórar Stundarinnar, eru á meðal eigenda. Þau eiga hvort um sig tólf prósent í félaginu.