Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Aktiva lausnir ehf. sem hóf í sumar að bjóða upp á milligöngu um lánveitingar á milli viðskiptavina, þar sem fyrirtækið tengir saman lántakendur og lánveitendur, hafi stundað greiðsluþjónustu án leyfis.

Verða að hafa tilskilin leyfi

Sá hluti þjónustu fyrirtækisins sem felst í milligöngunni sjálfri teljist ekki til leyfisskyldrar starfsemi að mati eftirlitsins, en hins vegar lýtur þjónusta félagsins einnig að flokkun lántakenda eftir greiðslumati, og móttöku og miðlun greiðslna á milli lántakenda til lánveitenda.

Segir í álitinu að einungis þeim greiðsluþjónustuveitendum sé heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi sem hafi tilskilin leyfi stjórnvalda til þess.

Varað við áhættu að gefnu tilefni

Jafnframt er í annarri tilkynningu sem eftirlitið birtir í dag neytendum bent á að kynna sér fyrir fram upplýsingar um áhættuna sem slíkum fjárfestingum fylgir, að gefnu tilefni eins og segir í tilkynningunni. Þar segir jafnframt:

  1. „Áhættan sem slíkum fjárfestingum fylgir er meiri en þegar fjármunir eru lagðir inn á innlánsreikning í viðskiptabanka og sparisjóði.
  2. Slíkar fjárfestingar njóta ekki lágmarksverndar í samræmi við lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
  3. Almennt eru slíkar fjárfestingar ekki innleysanlegar að hluta eða öllu leyti með skömmum fyrirvara.
  4. Veiting jafningjalána og starfsemi jafningjalánamiðlana er almennt ekki leyfisskyld og lýtur því ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins nema starfsemin feli jafnframt í sér eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, svo sem greiðsluþjónustu, sbr. lög nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu,...
  5. Neytendur ættu einungis að nota fjármuni í slíkar fjárfestingar sem þeir eru reiðubúnir að tapa.“

Hafa sótt um starfsleyfi sem greiðslustofnun

Í álitinu er tekið fram að fyrirtækið hafi ekki veitt greiðsluþjónustu frá þeim tímapunkti þegar eftirlitið fór fram á það við fyrirtækið að því yrði hætt, sem var 31. ágúst síðastliðinn.

Síðan þá hafi félagið hins vegar fært  greiðsluþjónustu vegna áður veittra lána til aðila sem hafa leyfi til þess. Auk þess hefur félagið sótt um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins sem greiðslustofnun.