Tölur um stundvísi flugfélaga sem birtar eru á vefsíðunni Túristi.is ná ekki yfir ferðir sem eru felldar niður eða breytt.

Slíkar upplýsingar eru ekki opinberar og eru aðeins sendar flugfarþegum í þeim ferðum þar sem breytingar eru gerðar. Í sumar hefur nokkuð verið um að flugtíma sé breytt, ferðir felldar niður eða sameinaðar hjá Icelandair, Iceland Express og Wow Air. Oft er það gert með skömmum fyrirvara. Kristján Sigurjónsson, stofnandi Túristi.is, segir að hann vildi gjarnan fá þessar upplýsingar hjá flugfélögunum til þess að vinna úr.

Flugfélögin séu hins vegar ekki viljug til þess að greina frá breytingum.

Kristján hefur um nokkra hríð tekið saman tölur um stundvísi flugfélaganna og birt á heimasíðunni. Tölurnar sýna hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratíma og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingu og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar.