Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagðist í gær vera reiðubúinn að falla frá andstöðu sinni við fyrirhugað eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Evrópu ef kerfinu yrði fremur komið fyrir í Mið-Asíuríkinu Aserbaídsjan. Pútin tjáði George Bush Bandaríkjaforseta að hann myndi ennfremur í kjölfarið láta af hótun sinni um að beina kjarnorkuvopnum Rússlands að Evrópu á ný.

Áætlanir Bandaríkjanna hafa hingað til miðað við það að eldflaugavarnarkerfið yrði sett upp í Tékklandi og Póllandi, en ráðamenn í Kreml hafa sett sig algjörlega upp á móti því og sagt að uppsetning þess myndi ógna öryggishagsmunum Rússlands.

Tillaga Rússlandsforseta kom flestum stjórnmálaskýrendum nokkuð á óvart, en þjóðaröryggisráðgjafi Bush, Stephen Hadley, tók fremur vel í hugmyndir Pútíns og sagði þær vera "áhugaverðar".