Hópur stuðningsmanna Liverpool ætlar sér að reyna að taka yfir félagið, en 100.000 aðdáendur knattspyrnuliðsins ætla að borga 5.000 pund hver og freista þess þannig að ná félaginu úr höndum amerískra eigenda þess. „Við verðum að nálgast núverandi eigendur og reyna að koma á samningaviðræðum, láta þá vita hvað við ætlumst fyrir“ sagði Rogan Taylor, fyrirsvarsmaður Share Liverpool FC, sem er félag stuðningsmanna sem ætla að kaupa félagið. Hann sagði að aðdáendur liðsins hefðu sýnt mikinn áhuga á að taka þátt í verkefninu og að stuðningsmenn frá meira en 200 löndum hafi haft samband.

Auk þeirra sem eru öruggir eða mjög áhugasamir um að taka þátt í að kaupa félagið eru aðrir 13.000 sem segjast ekki hafa efni á að greiða 5.000 pund en vilji þó leggja eitthvað af mörkum.

Nú er unnið að því að skipuleggja hvernig fyrirtækið myndi virka ef stuðningsmenn tækju það yfir. Áætlað er að stjórn félagsins yrði kosin til fjögurra ára í senn og að félagið yrði ekki rekið í hagnaðarskyni.

„Stuðningsmenn styðja sitt lið alltaf, og ættu nú að fá möguleika á að eiga hlut í sínu liði, alltaf“ sagði Taylor að lokum í viðtali við BBC-fréttastofuna.