Flestir, eða 58,5% svarenda könnunar MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum, segjast bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þar á eftir kemur Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, en 48,5% segjast bera mikið traust til hans.

Þá nýtur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mikils traust meðal 32,5% svarenda en 37,8% segjast bera lítið traust til forsetans.

Í tilkynningu frá MMR kemur fram að þetta er töluverð breyting frá í desember síðastliðnum þegar 43,7% kváðust bera mikið traust til forsetans og 28,7% sögðust bera lítið traust til hans.

Ef litið er til stuðnings við stjórnmálaflokka má sjá að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon njóta bæði nokkuð afgerandi trausts meðal stuðningsmanna beggja stjórnarflokkanna.

Leiðtogar fráfarandi ríkisstjórnar, þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, virðast aftur móti njóta lítils stuðnings utan sinna flokka. Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir eru þeir ráðherrar sem njóta mests trausts meðal þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Alls svöruðu 971 einstaklingar á aldrinum 18 – 67 ára síma- og netkönnun MMR en ekki kemur fram hversu stórt úrtakið var. Könnunin var framkvæmd dagana 11. – 12. febrúar.

Sjá niðurstöður könnunarinnar í heild sinni. (pdf skjal)