Framlög ríkisins til landbúnaðarframleiðslu hafa aukist nokkuð að raungildi að undanförnu og munu halda áfram að gera það í samræmi við samninga sem gerðir hafa verið við framleiðendur. Þróunin er þó mismunandi eftir greinum. Útgjöld til mjólkurframleiðslu hafa vaxið um 2,4% að jafnaði á ári á föstu verðlagi undanfarin tíu ár. Mjólkurbændum hefur fækkað að meðaltali um 5% á ári undanfarin ár. Útgjöld ríkisins eru 47,1% af grundvallarverði mjólkur sem endurspegla á framleiðslukostnað hvers lítra. Heildarkostnaður miðast við greiðslumark á ári sem ræðst af neyslu innanlands.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins er bent á að greiðslumarkið hefur aukist að meðaltali um 1% á ári sem er í samræmi við fólksfjölgun. Beinar greiðslur úr ríkisjóði til mjólkurbænda í frumvarpi til fjárlaga árið 2005 eru 4.152 m.kr. eða sem nemur um 4,5 m.kr. að meðaltali fyrir hvert mjólkurbú.

Útgjöld til sauðfjárframleiðslu hafa lækkað um 1,1% að jafnaði á ári á föstu
verðlagi undanfarin tíu ár. Stærsti hluti niðurgreiðslu ríkisins eru beinar
greiðslur til bænda sem miðast við ærgildi, er það samsvarandi 18,2 kg kjöts
þegar vegið er inn í sláturhús. Beingreiðsluupphæðin miðast í dag við um
358.000 ærgildi eða um 6.500 tonn af kjöti þegar búið er að taka tillit til
uppkaupa og byggðaverkefna. Framleiðslan er hins vegar meiri og fer það
sem umfram er til útflutnings en hann nýtur ekki beins stuðnings ríkisins.
Sauðfjárbúum hefur fækkað um fjórðung frá 1994 en þau framleiða 4 tonn af kjöti að meðaltali.

Stuðningur ríkissjóðs á hvert kíló af kindakjöti sem selt er innanlands nam 454 kr. árið 2003 og hefur hækkað að raunvirði um 14% á 10 árum. Árið 2005 eru útgjöld ríkissjóðs vegna sauðfjárræktar áætluð 2.390
m.kr. eða sem nemur 1,1 m.kr. fyrir hvert sauðfjárbú að meðaltali.
Stuðningur ríkissjóðs við grænmetisframleiðendur er áætlaður tæpar 300
m.kr. árið 2005 en hann var fyrst tekinn upp árið 2002.