Ráðning nýs framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs er í uppnámi. Yngvi Örn Kristinsson naut stuðnings meirihluta stjórnar fram á síðustu stundu.

Stuðningur meirihluta stjórnar Íbúðalánasjóðs við ráðningu Yngva Arnar Kristinssonar í stöðu framkvæmdarstjóra brást fyrir stjórnarfund fimmtudagskvöldið 8. júlí síðastliðinn. Á þeim fundi var stefnt að því að samþykkja ráðninguna í ágreiningi.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var lagt upp með að Hákon Hákonarsson stjórnarformaður legði tillöguna fram til samþykktar með stuðningi Gunnars S. Björnssonar og Jóhanns Ársælssonar. Kristján Pálsson og Elín R. Líndal treystu hins vegar Ástu H. Bragadóttur aðstoðarframkvæmdarstjóra best til starfans. En stjórnarformaðurinn kláraði ekki málið á fundinum og því var frestað.

Hákon kýs að tjá sig ekki um efni málsins. Hann segir enn verið að vinna úr þessum umsóknum og á þeim forsendum hafi ráðningunni verið frestað um óákveðinn tíma. Hann vill ekki greina frá því hvort ágreiningur hafi verið innan stjórnar. Í sama streng taka stjórnarmennirnir Jóhann Ársælsson og Kristján Pálsson. Báðir segja unnið að því að afgreiða ráðninguna með víðtækum stuðningi.

-Nánar í Viðskiptablaðinu