Sturla Böðvarsson, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forseti Alþingis segir að hann hafi aldrei tapað kosningum, hvorki innan flokksins né í sínu kjördæmi en hins vegvar hefði hann staðið frammi fyrir mótframboði um embætti forseta Alþingis nýlega og beðið þar lægri hlut.

„Þar var kosningastjóri í raun og veru enginn annar en bóndinn á Bessastöðum,“ segir Sturla.

Þetta kemur fram á mbl.is í dag en fyrr í dag tilkynnti Sturla að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér á ný fyrir kosningarnar í vor.

„Bessastaðabandalagið, eins og ég kalla stuðningsmenn minnihlutastjórnarinnar, stóðst ekki prófið.“

Þá segir mbl.is að Sturla hafi sakað forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, um afskipti af stjórnarmynduninni og sagði þau dæmalaus á fundi kjörƒ{dæmisráðs sjálfstæðisfélaganna í Norðvesturkjördæmi í dag.

„Forsetinn hikaði ekki við að hafna stjórn allra flokka, skáka Sjálfstæðisflokknum burt og setja til valda Vinstri græna sem höfðu bæði leynt og ljóst staðið fyrir grjótkastinu og innrásinni í Alþingishúsið og í raun staðið fyrir valdatöku þegar Samfylkingin missti kjarkinn eftir árásina á Alþingishúsið og aðförina að fundi Samfylkingarinnar í Leikhúskjallaranum,“ sagði Sturla og bætti því við að það mætti með sanni segja að minnihlutastjórn Jóhönnu hefði komist til valda í skjóli ofbeldis.

„Það var sláandi fyrir okkur sem vorum í þinghúsinu þegar sem mest gekk á að verða þess áskynja þegar ofbeldisfólkið sem réðst á Alþingishúsið fór eftir að Vinstri grænir fengu sitt fram og höfðu sest í ráðherrastóla.“

Sjá nánar á mbl.is