Egill Helgason er um margt hugmyndaríkur og flinkur þáttastjórnandi.  En hann kann sér ekkert hóf í bloggfærslum sínum og ýtir undir ósómann  sem fylgir með þegar hann skrifar og opnar síðan fyrir umsagnir um það sem hann setur fram.

Þetta segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis í pistli á Pressunni í dag.

Sturla segir skrif Egils á blogginu jafnan vera mjög ómálefnalegar umsagnir og viðbrögð við því sem sé í fréttum.

„Þar setur hann fram nær undantekningarlaust einhverjar fullyrðingar og oft meiðandi ummæli um nafngreinda menn sem leyfa sér að hafa aðra skoðun en Egill sem bloggar á Eyjunni  í skjóli  RÚV og fer þá lítið fyrir hlutleysi þessa starfsmanns ríkisútvarpsins,“ segir í pistli Sturlu.

„Hvað gengur þeim sómakæru mönnum Páli Magnússyni útvarpsstjóra  og Óðni Jónssyni fréttastjóra til, að láta það viðgangast að starfsmaður RÚV fái slíkan persónulegan aðgang að  síðu RÚV. Hann notar þessa vel auglýstu síðu til þess að þjóna lund sinni gagnvart þeim sem honum er í nöp við einhverra hluta vegna og opnar síðan í gegnum blogg sitt inn á lendur ómálefnalegrar umræðu, rógs og illmælgi í skjóli nafnleyndar.“

Bloggsíða Egils eina bloggsíðan sem RÚV auglýsir

Sturla segir að á heimasíðu RÚV sé haldið úti stöðugri auglýsingu fyrir bloggsíðu Egils en engir aðrir vefmiðlar sé kynntir með þessum hætti á heimasíðu „hins óháða ríkisfjölmiðils,“ eins og Sturla orðar það.

„Allt væri þetta gott og blessað ef þessi bloggsíða tengdist eingöngu þeim þáttum sem þessi áhrifamikli fjölmiðlamaður stjórnar hjá RÚV,“ segir Sturla.

„Á þessari bloggsíðu heldur Egill úti mestu ritsóðasíðu sem þekkist og þar er hann sjálfur fremstur meðal jafningja og ýtir undir stóryrði og sleggjudóma og dregur að nafnlausa skríbenta sem fylgja honum eftir þegar honum tekst „best“ upp í því að ráðast að nafngreindum  mönnum  og skeytir þá hvorki um skömm né heiður þegar hann lætur gamminn geysa.“

Sturla segir mál- og ritfrelsið vera dýrmætt en öllu frelsi fylgi ábyrg. Þá rifjar hann upp að árið 2003 hafi verið sett ný fjarskiptalög þar sem meðal annars var skylt að skrá svokallaðar IP tölur niður. Sturla var þá samgöngumálaráðherra, og þar með ráðherra fjarskiptamála, en rifjar upp í pistli sínum í dag að hann hafi verið  undir miklum árásum, þá helst úr bloggheimum. Hann segist þó ekki sjá eftir því í dag að hafa ekki gefið eftir.

Sjá pistil Sturlu í heild sinni.