Það kom auðvitað á óvart þegar forsætisráðherra notaði tækifærið þegar hún flutti „kattaræðuna“ yfir flokksráði Samfylkingarinnar og sagði: Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessu verða gerð skil í rannsóknarskýrslunni, en ég hef þegar ákveðið að verði þau ekki ítarleg mun ég beita mér fyrir setningu laga um sérstaka rannsókn á einkavæðingunni.

Þetta segir Sturla Böðvarsson, fyrrv. forseti Alþingis í pistli á vef Pressunar í dag. Sturla segir að Jóhanna hafi samþykkt lög sem feli þingnefnd að taka við rannsóknarskýrslunni og vinna úr henni. Leggja fyrir Alþingi tillögur og væntanlega leitast við að skapa sátt um framhaldið á vettvangi þingsins.

Í upphafi pistils síns segir Sturla að sérkennilegt sé að fylgjast með því „hvernig ýmsir aðilar reyna að koma höggi á Rannsóknarnefnd Alþingis þegar hún er að leggja loka hönd á rannsóknarskýrsluna um bankahrunið.“

Sturla segir að gera hefði mátt ráð fyrir því að Jóhanna leyfði þingnefndinni að fá frið til þess að rannsaka skýrsluna og gera tillögur um viðbrögð.

„Þess í stað boðar hún ein og sér sérstaka rannsókn til hliðar við nefndirnar sem Alþingi hefur falið verkið,“ segir Sturla.

„Ekki fer á milli mála að með þessu útspili er forsætisráðherra að skapa óvissu og tortryggni í garð nefndarinnar og vinnuhópsins sem vinnur að rannsókninni.“ Þá rifjar Sturla upp að allir formenn stjórnmálaflokka hefðu samþykkt lögin um rannsóknarnefndina og skipan hennar, þar á meðal Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar.

„Það var vitað fyrirfram að starf Rannsóknarnefndar Alþingis væri ekki auðvelt verk. Síðustu vikur hefur öðru hverju verið reynt að gera starf rannsóknarnefndarinnar og vinnuhópsins tortryggilegt..., „ segir Sturla í pistli sínum.

„Alvarlegasta atlagan kom frá sjálfum forsætisráðherranum, Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar hún flutti „kattaræðuna“. Þar hafði hún í hótunum rétt eina ferðina. Hún sagði að ef Rannsóknarnefndin fjallaði ekki þóknanlega um einkavæðingu bankanna myndi hún standa fyrir sérstakri löggjöf þar um.“

Sjá pistil Sturlu í heild sinni.