Kynni mín af pólitísku verklagi núverandi fjármálaráðherra eru af vettvangi þingsins. Framganga hans þar, er og hefur verið, mörkuð af takmarkalausum yfirgangi. Þar sem engin leið er að semja  nema á forsendum sem hann setur sjálfur og æði oft sem úrslitakosti.

Þetta segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti Alþingis og samgönguráðherra í pistli á vef Pressunnar í dag þar sem hann fjallar um ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og vinstri grænna.

„Ég sé fyrir mér stjórnarmyndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem öll völd voru færð  í hendur VG gegn því að þeir samþykktu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Og VG hefur fórnað öllum sínum kosningaloforðum fyrir völdin,“ segir Sturla.

Sturla segir að eftir alþingiskosningarnar 2007 forysta VG sótt það mjög fast að ganga til samstarfs í ríkisstjórn með sjálfstæðismönnum.

„Þær voru ekki skrifaðar þá, þær hatursfullu ræður sem síðar voru fluttar í þinginu um sjálfstæðismenn. Þær ræður má lesa í Þingtíðindum. Þær eru hinsvegar ekki uppbyggilegt lestrarefni,“ segir Sturla.

„Það blasti við öllum sem voru á Alþingi vorið 2007 eftir að stjórnin var mynduð, að formaður VG réði sér ekki af heift og reiði í garð sjálfstæðismanna þegar forysta Sjálfstæðisflokksins valdi að ganga til samstarfs við Samfylkinguna. Hann áttaði sig auðvitað á því að staða okkar Íslendinga var þá  sterk á flesta mælikvarða, mikil uppbygging hafði átt sér stað á öllum sviðum [...] Steingrímur Jóhann vildi komast til valda með okkur sjálfstæðismönnum vorið 2007 og virðist ekki hafa komist yfir það að svo varð ekki. Þess vegna þarf að skoða framgöngu hans gagnvart sjálfstæðismönnum í því ljósi.“

Þá segir Sturla að hann taldi þá, af tvennu illu, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að velja samstarf við VG og láta á það reyna „hvort þeir væru samstarfshæfir,“ eins og Sturla orðar það í pistli sínum.

„En hver er tilgangurinn með því að fjármálaráðherra velji að stunda stöðugar og ómálefnalegar  árásir á Sjálfstæðisflokkinn við hvert einasta tækifæri. Allt bendir til þess að heiftin blindi honum sýn en hann telji sig geta með þessum „ofbeldisfulla“ málflutningi hrakið Sjálfstæðismenn í varanlega pólitíska útlegð,“ segir Sturla.

„Og þannig skapað sér og sínum skjól með því að ganga fram með ótrúlegum  hætti svo sem  við skattalagabreytingarnar. Steingrímur Jóhann virðist vera tilbúinn til þess að fórna árangri um hin stærstu mál þjóðarinnar frekar en að leita samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.“

Sjá pistil Sturlu í heild sinni.