Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, sagði við upphaf þingfundar á Alþingi í dag, að hann harmaði þá atburði sem átt hefðu sér stað fyrir framan alþingishúsið að undanförnu.

„Menn verða að fara með friði," sagði hann.

„Ég hef verið hugsi um atburði síðustu vikna við alþingishúsið og er ekki einn um það," sagði Sturla. Hann sagði að veggir þinghússins hefðu verið útbíaðir, rúður brotnar og ruðst hefði verið inn í húsið með ofbeldi.

„Í stjórnarskránni segir að eigi megi raska friði Alþingis né frelsi. Þess vegna hljótum við að harma þessa atburði. við höfum mótað okkur leikreglur í samfélaginu á löngum tíma. Þeim má vissulega breyta, en menn verða að fara með friði, annars er voðinn vís."

Hann kvaðst vona í lengstu lög að atburðirnir boðuðu ekki nýja siði í íslenskum stjórnmálum. „Alþingi er hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar. Þangað velur íslenska þjóðin sína fulltrúa. Stöndum vörð um Alþingi," sagði Sturla Böðvarsson í upphafi þingfundar.

Nú ræða þingmenn þá kröfu nýrrar ríkisstjórnar að kjörinn verði nýr forseti þingsins í stað Sturlu.