Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans voru í opinberri heimsókn í Frakklandi 9-13. júní í boði Georges Colombier, forseta vináttuhóps Frakklands og Íslands á franska þinginu.

Sturla átti á þriðjudag fund með Jean-Luis Borloo, umhverfisráðherra Frakklands. Þeir ræddu áhrif loftslagsbreytinga og afleiðingar losunarkvóta á flugsamgöngur til og frá Íslandi.

Á miðvikudag áttu Sturla og þingflokksformenn íslenskra þingflokka, sem eru með í för, fund með vináttuhópi Frakklands og Íslands á franska þinginu. Umræðuefni fundarins voru m.a. staða efnahags- og umhverfismála, að því er segir í fréttatilkynningu frá Alþingi.

Í gær heimsótti íslenska sendinefndin m.a. orkurannsóknarmiðstöð, þar sem rannsökuð er umbreyting raforku í vetnisorku. Auk þess miða rannsóknirnar að þróun varðveislu raforku í rafhlöðum fyrir rafbíla.

Í dag mun íslenska sendinefndin hitta fulltrúa franskra samgöngufyrirtækja, eiga fund með yfirmönnum ferðamála í Frakklandi og sækja hátíðar- og kveðjukvöldverði í franska þinginu.