*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 5. mars 2021 10:07

Sturla býður sig fram í stjórn Icelandair

Alls hafa nú átta manns tilkynnt um framboð til stjórnar Icelandair fyrir aðalfund félagsins þann 14. mars.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sturla Ómarsson, stjórnarformaður Eftirlaunasjóðs Félags íslenskra atvinnuflugmanna og flugstjóri hjá Icelandair, mun bjóða sig fram í stjórn Icelandair, en hann greinir frá þessu við Túrista

„Ég hef mikla trú á Icelandair og tel tækifærin til að sækja fram vera mörg. Meðal annars vegna góðrar ímyndar Íslands og ekki síst legu landsins,” segir Sturla spurður um ástæður þess að hann bjóði sig fram. Hann segist vera að bjóða sig fram sem einstaklingur en ekki fyrir hönd eftirlaunasjóðsins eða flugmanna.

Sturla hefur verið stjórnarformaður Eftirlaunasjóðs FÍA síðustu átta ár en sjóðurinn er einn af tuttugu stærstu hluthöfum Icelandair. Auk þess að vera atvinnuflugmaður er hann með mastersgráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. 

Eftir að hafa átt samtöl við stóra hluthafa, telur Sturla að stemning sé fyrir breyttri stjórn. Spurður um mikilvægustu verkefnin sem félagið eigi að ráðast í, þá segir hann að brýnt sé að jafna árstíðarsveiflur sem einkenni reksturinn. Það megi meðal annars gera með því að finna félaginu fleiri verkefni í frakt- og leiguflugi. Eins ber að nýta staðsetningu landsins til að koma á fót skiptistöð fyrir fraktflutninga á sama hátt og í farþegafluginu.   

Sjá einnig: Hiti hlaupinn í stjórnarkjör Icelandair

Steinn Logi Björnsson, fyrrum forstjóri Bláfugls, hefur einnig boðið sig fram til stjórnar en hann setti nýlega í loftið framboðssíðuna steinnlogi.is. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, hyggst einnig gefa kost á sér til stjórnar Icelandair. 

Sturla er því þriðji einstaklingurinn, auk sitjandi stjórnarmanna, sem hefur tilkynnt um framboð til stjórnar Icelandair. Stjórnarkjörið fer fram á aðalfundi félagsins, þann 12. mars næstkomandi.