Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, var 95% viss um að 4 milljarða evra lán frá Rússlandi gengi í gegn.

Þetta kemur fram í skjölum bandaríska sendiráðsins sem Wikileaks birta í dag. Bréfið sendir Van Voorst, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna, til kollega sinna í Washington þann 8. október 2008.

Á þeim tíma var talið að Rússland myndi aðstoða Ísland með 4 milljarða evra lánveitingu.

Segir í bréfi van Voost að Íslendingum sé talin trú um að lánið muni fást og hafi verið samþykkt af æðstu stjórnendum Rússlands. Sturla ásamt fjórum öðrum fari til Rússlands næstkomandi mánudag, 13. október 2008, til þess að semja um lánaskilmála. Með í för verði tveir íslendingar sem tala Rússensku.

Þá segir í bréfinu að bandaríska sendiráðið reyni nú að finna við hvern íslensk stjórnvöld töluðu við í Bandaríkjunum, en utanríkisráðherra fullyrti deginum áður en bréfið er skrifað að Bandaríkin hafi neitað Íslandi um aðstoð. Van Voost hefur eftir Sturlu Pálssyni að talað var við Timothy Geithner, sem þá var stjórnarformaður Seðlabanka Bandaríkjanna og er nú fjármálráðherra. Þá var á þeim tíma rætt við hin Norðurlöndin. Sturla sagði að það yrði afar jákvætt að heyra aftur frá bandarískum stjórnvöldum og myndi leiða til aukins trausts.