Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgönguráðherra, er bæjarstjóraefni H-lista framfarasinnaðra Hólmara í Stykkishólmi. Flokkurinn er myndaður með stuðningi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í bænum og býður fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Stula er í fjórða sæti á lista flokksins og bæjarstjóraefni hans. Sturla er ekki ókunnur bæjarmálapólitíkinni í Stykkishólmi en hann var bæjarstjóri þar á árunum 1974 til 1991 þegar hann fór á þing. Sturla var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, m.a. samgönguráðherra á árunum 1999 til 2007 og forseti Alþingis til 2009.

Hann segir í samtali við Skessuhorn framboðið leggjast vel í sig enda langt síðan hann hafi unnið síðast að bæjarmálum í Stykkishólmi. Hann er m.a. spurður að því hvort ekki sé óvanalegt að menn á hans aldri séu í stafni í kosningabaráttu svarar hann því til að aldur sé afstæður. Sturla verður 69 ára á árinu.