Flugumferð gengur nú með eðlilegum hætti til og frá Íslandi eftir bæði Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli var lokað í nótt vegna eldgossins í Fimmvörðuhálsi.

Töluverðar tafir hafa orðið á flugi Icelandair vegna þessa. Þegar gosið braust á um miðnætti voru tvær vélar þegar farnar í loftið frá Bandaríkjunum, annars vegar frá Seattle og hins vegar frá Orlando, og var þeim snúið til Boston þar sem þriðja vélin beið jafnframt en hún hafði ekki enn farið í loftið.

Þá varð nokkurra klukkustunda seinkun á flugi til sex Evrópuborga í morgun, með þeim afleiðingum að flugi til landsins frá Evrópu síðdegis hefur sömuleiðis seinkað mjög og eru þau flug væntanleg í kvöld. Á hefðbundnum degi koma þær vélar til Íslands um miðjan dag

Brottför síðdegisflugs frá Íslandi til Evrópu seinkar sömuleiðis fram á kvöld samkvæmt tilkynningu frá Icelandair, og koma þær flugvélar til baka frá Evrópuborgum til Íslands seint í nótt.

Farþegar og aðstandendur þeirra eru hvattir til þess að fylgjast með komu- og brottfarartímum á textavarpi og vefsvæðum sem veita þær upplýsingar. Gera má ráð fyrir að tafirnar snerti um það bil fjögur þúsund farþega á þessum sólarhring. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins mun áætlunarflug Icelandair þó fljótt komast á eðlilegt stig, þó með þeim fyrirvara að ekki verði af fyrirhuguðu verkfalli flugvirkja sem hefjast á kl. 01 í nótt.

Af hverju lokað er fyrir flugumferð

Ástæðan fyrir því að lokað er fyrir flugumferð nálægt gossvæðum er í stuttu máli sú að askan og öskustrókurinn getur haft verulega skaðleg áhrif á hreyfla og stjórntæki flugvéla. Verst er ef mikil aska kemst í hreyfla vélanna. Þá getur askan, þó möguleikarnir séu litlir, haft skaðleg áhrif á önnur stjórntæki, s.s. rafknúin stjórntæki, flapsa og annað.

Því til viðbótar er mikil hætta á eldingum nálægt gossvæðum og þá sérstaklega í öskuskýjum. Ljóst er að farþegaflugvélar fljúga ekki viljandi í gegnu öskuský og eldingar eru í rauninni ekki hættulegar flugvélum. Þær valda fyrst og fremst óþægindum fyrir farþega þar sem mikið högg kemur á vélina þegar elding lýstur í hana og elding getur valdið einhverjum skemmdum á búki vélarinnar þó þær séu í flestum tilfellum minniháttar. Engu að síður er mun meiri hætta á eldingum á svæðinu í kringum gos og það er eitt af því sem telst til þegar horft er til flugöryggisatriða.

Í nótt var lítið vitað um hvort eða  hversu mikið askan hefði dreift sér í háloftunum og því flugumferð lokað skv. almennum reglum um flugöryggi. Undir morgun og í dag hafa farið fram öskumælingar og skv. spám sem byggðar eru á þeim er búið að opna flugvellina á ný. Egilsstaðarflugvöllur var í raun eini „stóri“ flugvöllurinn sem ekki var lokað.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan nær hættusvæðið nú frá eldstöðinni í einskonar þríhyrning í norður og vesturátt. Þetta svæði er afmarkað skv. öskumælingaspám.

Hæð svæðisins sem flugumferð er beint frá er 5000 fet, yfir þeirri hæð er í lagi að fljúga skv. tilkynningu frá Flugstoðum.  Til samanburðar er Hvannadalshnjúkur 6922 fet eða 2110 metrar. Nokkur umferð einkaflugvéla hefur verið á svæðinu í kring en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa flugmenn farið að fyrirmælum og ekki farið of nálægt hættusvæðinu. Rétt er að taka fram að hættusvæðið getur breyst mjög hratt með breyttri vindátt eða veðurlagi. Allur er varinn því góður áður en farið er í loftið.